Málsmeðferð stjórnvalda. Börn. Meðlag.

(Mál nr. 6115/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins í málum tengdum meðlagi með börnum hans. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júlí 2010.

A kærði meðlagsúrskurð sýslumanns 22. maí 2009 og krafðist þess að móður barna sinna yrði gert að greiða sér meðlag með börnunum frá 6. nóvember 2008 til 18 ára aldurs þeirra. Hinn 2. nóvember 2009 var lögheimili barnanna flutt til A miðað við 1. nóvember 2008 og í kjölfarið úrskurðaði sýslumaður á ný og gerði móðurinni skylt að greiða meðlag með börnunum frá 1. apríl 2009. A stóð við fyrri kröfur um meðlagsgreiðslur og ráðuneytið kvað upp úrskurð 2. júní 2010 þar sem móðurinni var gert að greiða A meðlag fyrir tímabilið 1. febrúar 2009 til 31. mars s.á. Í kjölfarið óskaði A eftir því að Tryggingastofnun ríkisins greiddi sér meðlag í samræmi við úrskurð ráðuneytisins en tryggingastofnun hafnaði beiðninni á þeim grundvelli að málið væri orðið „of gamalt“, þ.e. að ekki væri heimilt að greiða meðlag lengra aftur í tímann en 12 mánuði. A kvartaði yfir málsmeðferðartíma ráðuneytisins og synjun tryggingastofnunar. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 benti umboðsmaður A á að bera þann hluta kvörtunarinnar er laut að Tryggingastofnun ríkisins undir úrskurðarnefnd almannatrygginga, sbr. 7. gr. laga nr. 100/2007. Í slíku máli kynni jafnframt að reyna á hvaða áhrif málsmeðferðartími ráðuneytisins kynni að hafa á mál A hjá tryggingastofnun. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til nánari athugunar á þeim hluta kvörtunarinnar og benti auk þess á að yrði ekki fallist á kröfur A þrátt fyrir meintan drátt málsins í ráðuneytinu stæðu einvörðungu eftir álitamál um hvort A ætti hugsanlega skaðabótarétt vegna tjónsins sem hann kynni að hafa orðið fyrir vegna málsmeðferðartímans, en það yrði að vera verkefni dómstóla að fjalla um slík atriði.