Málsmeðferð stjórnvalda. Útlendingar. Dvalarleyfi.

(Mál nr. 6117/2010)

A óskaði þess að umboðsmaður kannaði hvort afgreiðsla stjórnvalda á umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna stæðist lög. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. september 2010.

Í úrskurði félags- og tryggingamálaráðuneytisins í máli A kom fram að A hefði kært ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja honum um tímabundið atvinnuleyfi til að starfa hjá B ehf. og jafnframt krafist þess að réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar yrði frestað. Tekið var fram að úrskurðurinn lyti „eingöngu að kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa umræddrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar“. Af úrskurðinum að öðru leyti og bréfi ráðuneytisins, dags. sama dag, varð ráðið að enn hefði ekki verið úrskurðað um kæru A á synjun Vinnumálastofnunar um útgáfu atvinnuleyfis honum til handa. Þá lá fyrir að umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Umboðsmaður fékk því ekki betur séð en að mál A væru enn til meðferðar hjá viðeigandi stjórnvöldum, að öðru leyti en því er varðaði synjun félags- og tryggingamálaráðuneytisins á beiðni hans um frestun á réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar um að synja honum um útgáfu tímabundins atvinnuleyfis. Þá taldi umboðsmaður ljóst að þegar A sótti um tímabundið atvinnuleyfi hafði hann ekki heimild að lögum til að stunda atvinnu hér á landi. Synjun Vinnumálastofnunar hefði þannig ekki falið í sér breytta réttarstöðu hans að því leyti. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins um að hafna því að fresta réttaráhrifum synjunar Vinnumálastofnunar. Þá taldi umboðsmaður, í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, sér ekki unnt að taka mál A til frekari athugunar að svo stöddu og lét málinu lokið. Umboðsmaður taldi hins vegar rétt að rita dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu bréf þar sem hann kom á framfæri tilteknum ábendingum vegna málshraða í máli A í ráðuneytinu. Þannig lá fyrir og var óumdeilt að ákvörðun sem Útlendingastofnun hafði tekið um að synja A um dvalarleyfi var byggð á röngum lagagrundvelli. Í stað þess að endurupptaka málið að eigin frumkvæði þegar mistökin urðu ljós ákvað Útlendingastofnun að láta við það sitja að tilkynna um þau í bréfi til ráðuneytisins þar sem fram kom að ekki hefði verið „tekin afstaða til beiðni umboðsmanns umsækjanda um að umsóknin yrði tekin til afgreiðslu á grundvelli 12. gr. f. laga nr. 96/2002, hvað varðar sérstök tengsl kæranda við landið“. Þrátt fyrir að afstaða Útlendingastofnunar lægi þannig ljós fyrir frá upphafi liðu rúmir fimm mánuðir þar til ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar. Umboðsmaður taldi, þegar litið var til þeirra verulegu persónulegu hagsmuna sem í húfi voru fyrir A, að ráðuneytinu hefði borið að gæta betur að málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga í málinu og kem þeirri ábendingu á framfæri að betur yrði gætt að þessu atriði við meðferð hliðstæðra mála í framtíðinni. Jafnframt kom umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að setja sér viðmiðanir og/eða verklagsreglur um tímamörk fyrstu athugunar stjórnsýslumála, hefði það ekki þegar verið gert.