Málsmeðferð stjórnvalda. Málshraðareglan. Atvinnuleysistryggingar.

(Mál nr. 6150/2010)

A kvartaði yfir málsmeðferð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hún gerði athugasemdir við málsmeðferðartíma nefndarinnar og tregðu Vinnumálastofnunar við að skila inn athugasemdum sem tefði málið. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. nóvember 2010.

Af gögnum málsins var ljóst að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. júní 2010 var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. júlí 2010. Þá var ljóst að úrskurðarnefndin hafði óskaði eftir öllum gögnum málsins og Vinnumálastofnun verið gefinn kostur á að tjá sig með bréfi, dags. 4. ágúst 2010. Frestur til svara var til 18. ágúst 2010. Umsögnin barst þó ekki fyrr en með bréfi, dags. 5. október 2010. og var A þá gefinn kostur á athugasemdum með bréfi, dags. 6. október 2010, og veittur frestur til 20. s.m. til að bera þær fram. Þegar kvörtunin var lögð fram hafði úrskurðarnefndin enn ekki úrskurðað í málinu. Í skýringum úrskurðarnefndarinnar kom fram að nú hefði verið úrskurðað í málinu og því taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna málshraða í máli A og lauk meðferð sinni á kvörtun hennar með bréfi, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Hins vegar ákvað umboðsmaður á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 að afla upplýsinga að eigin frumkvæði hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu um þær aðgerðir sem ráðuneytið hefði gripið til vegna þeirrar stöðu sem lýst var í skýringum úrskurðarnefndarinnar, þ.e. að greinargerðir og gögn bærust seint frá Vinnumálastofnun og það hefði komið ítrekað til tals hjá yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðuneytis sem hefði haft samband við forstöðumann stofnunarinnar án sýnilegs árangur, og þá hvaða áhrif þær hefðu haft og hvort frekari aðgerðir stæðu fyrir dyrum. Svör hafa borist frá velferðarráðuneytinu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhald málsins.