Námslán og námsstyrkir. Innheimtuhættir.

(Mál nr. 6041/2010)

A kvartaði yfir meðferð LÍN á innheimtu á námsláni sínu. Í erindinu benti hann m.a. á að 30. apríl 2010 hefði héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðað um að veita sér heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Deginum áður hefði lánasjóðurinn hlutast til um að stefna væri samin á hendur sér og föður sínum sem var ábyrgðarmaður að námsláninu. Meðfylgjandi kvörtuninni var stefna dagsett 29. apríl 2010 og var stefnufrestur þrír sólarhringar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. október 2010. Í málsvörn A vegna stefnu LÍN kom m.a. fram að hann gerði kröfu um að stefnunni yrði vísað frá dómi með vísan til 22. gr. laga nr. 21/1991. Í skýringum LÍN til umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að stefnan hefði verið birt A 17. maí 2010 og föður hans 11. sama mánaðar. Þegar stefnan var útbúin og send til birtingar hefðu engar upplýsingar legið fyrir, hvorki um umsókn um greiðsluaðlögun né úrskurð héraðsdóms um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Sjóðurinn lýsti einnig þeirri afstöðu sinni að ekkert í lögum nr. 21/1991 bannaði kröfuhafa að gefa út stefnu þrátt fyrir að heimild til að leita nauðasamnings um greiðsluaðlögun hefði verið veitt. Umboðsmaður taldi ekki útilokað, að virtu efni málsvarnar A í dómsmálinu sem LÍN hafði höfðað, að atriði sem kvörtun A til umboðsmanns beindist að kynnu að koma til umfjöllunar í dómsmálinu, yrði því ekki frestað. Umboðsmaður benti á að með hliðsjón af b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 fjallaði hann almennt ekki um mál sem væru til meðferðar hjá dómstólum. Hann taldi því ekki skilyrði til að fjalla frekar um kvörtun A og lauk athugun sinni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður ritaði LÍN þó bréf og benti á að það væri eðlilegra og í betra samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, að skrá, og eftir atvikum birta á vefsíðu stofnunarinnar, gildandi verklagsreglu um að ekki verði gefin út stefna á hendur lánþega eftir að úrskurður fellur um að leita megi nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður minnti á að slíkur stjórnsýsluháttur væri ekki aðeins viðkomandi skuldara til hagsbóta heldur leiddi einnig til þess að starfsmenn LÍN hefðu með tryggum og sannanlegum hætti vitneskju um regluna og gætu þ.a.l. beitt henni við þær aðstæður þar sem hún ætti við.