Skattar og gjöld. Þjónustugjöld.

(Mál nr. 5956/2009)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis kvartaði yfir 300 kr. þjónustugjaldi vegna útgáfu staðfestra vottorða, svo sem fyrir vottorð sem nemendaskrá HÍ gefur út samkvæmt beiðni námsmanns, t.d. um námsferil.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 17. desember 2010. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá kostnaðarliði sem HÍ tók tillit til við ákvörðun þjónustugjalda vegna útgáfu vottorða til nemenda. Hann taldi að þessir kostnaðarliðir stæðu í nægilega nánum og efnislegum tengslum við veitingu umræddrar þjónustu. Hins vegar vakti það athygli hans að enda þótt fyrir lægi að vottorð gefin út á vegum skólans væru mismunandi og að mismikil vinna færi í frágang þeirra væri engu að síður sama gjald tekið fyrir þau öll. Í ljósi þeirrar fullyrðingar HÍ að varfærnisleg aðferð skólans við mat á þeim kostnaðarliðum sem stæðu að baki gjaldtökunni leiddi til þess að það gjald sem innheimt væri fyrir hin ólíku vottorð væri „lágmarksgjald“ taldi umboðsmaður sig þó ekki hafa forsendur til að fullyrða að gjaldtakan bryti í bága við lög nr. 85/2008 og meginreglur stjórnsýsluréttar um töku þjónustugjalda. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu með bréfi en taldi rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri að við endurskoðun HÍ á gjaldskrá vegna útgáfu vottorða kynni að vera ástæða til að huga nánar að þessu og leitast við að upplýsa nánar um þann kostnað sem lægi að baki þeirri þjónustu sem veitt væri með útgáfu vottorða sem krefðust mismikillar vinnu. Þá benti umboðsmaður á að væri framkvæmd HÍ sú að innheimta fullt gjald fyrir útprentun á aukaeintökum vottorða, þannig að sá sem óskaði eftir tveimur vottorðum greiddi tvöfalt hærra verð en sá sem óskaði eftir einu eintaki, teldi umboðsmaður hana í ósamræmi við lög. Aðeins væri heimilt að innheimta gjald í samræmi við þann aukakostnað sem aukaeintökin leiddu til en samkvæmt skýringum háskólans sjálfs væri hann um sjö krónur á hverja blaðsíðu. Þá tók umboðsmaður fram að þótt hann hefði ekki talið tilefni til að gera athugasemdir við þá kostnaðarliði sem háskólinn byggði á við ákvörðun sína um þjónustugjöld vegna útgáfu vottorða kynnu einstakir liðir þeirra að koma til athugunar síðar hjá umboðsmanni vegna kvartana sem beindust að fjárhæð gjalds fyrir útgáfu einstakra tegunda af vottorðum.