Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Almannatryggingar. Svör við erindum.

(Mál nr. 6092/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði m.a. yfir því fjármálaráðuneytið hefði ekki svarað erindi sem hann sendi með tölvubréfi, dags. 7. apríl 2010. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. september 2010, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindi A til ráðuneytisins hefði innihaldið í viðhengi erindi til félagsmálaráðherra, stílað á hann persónulega, og efni þess hefði varðað starfssvið félagsmálaráðuneytisins. Erindið hefði ekki borið með sér að vera sent fjármálaráðherra í þeirri trú að efni þess heyrði undir fjármálaráðuneytið heldur hefði mátt ráða af því að A hefði ætlað að vekja athygli fjármálaráðherra á bréfaskiptum sínum við félagsmálaráðuneytið. Erindið hefði því ekki verið tekið til efnislegrar úrlausnar.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til A kom fram að í álitum umboðsmanns hefði margsinnis verið vísað til þess að það væri meginregla í stjórnsýslurétti að svara skriflegu erindi, sem beint væri til stjórnvalds, skriflega nema ljóst mætti vera af efni þess að svars væri ekki vænst. Hins vegar yrði einnig að líta til þess hvers efnis viðkomandi erindi væri og hvort því væri beint til stjórnvaldsins vegna stjórnsýslumáls sem heyrði undir það eða hvort það væri eingöngu sent til að kynna tiltekið mál eða fæli í sér áskorun um að stjórnvaldið aðhefðist í tilteknu máli. Þegar segja ætti til um hvort stjórnvaldi bæri að svara skriflegu erindi þyrfti því að meta efni erindisins heildstætt. Umboðsmaður tók fram að þegar erindi væri beint til ráðherra yrði að hafa í huga að þeir væru annars vegar æðstu handhafar framkvæmdarvalds á sviði sinna ráðuneyta og teldust sem slíkir til stjórnsýslu ríkisins og hins vegar, ef þeir eru jafnframt alþingismenn, að þeir kæmu að stjórnmálastörfum bæði innan Alþingis og utan. Það væri því iðulega svo að til ráðherra leitaði fjöldi fólks með mál sem það vildi vekja athygli þeirra á sem stjórnmálamanna og hvetja þá til þess að beita sér fyrir breytingum á löggjöf eða öðrum reglum.

Umboðsmaður benti á að umboðsmaður Alþingis fjallaði ekki um störf Alþingis, sbr. a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og þar með félli það almennt utan við hlutverk umboðsmanns að lögum að taka afstöðu til þeir athafna, eða eftir atvikum athafnaleysis, ráðherra sem einungis verður talið þáttur eða liður í stjórnmálastarfi hans eða starfi á Alþingi. Umboðsmaður hefði því ekki talið það falla undir hlutverk sitt að fjalla um synjun ráðherra á beiðni um fund sem óskað væri eftir í þeim tilgangi að koma á framfæri athugasemdum við stjórnmálastefnu ráðherra. Sama gilti um svör við skriflegum erindum sem beint væri til ráðherra vegna stjórnmálastarfs hans og sem ekki væri liður í úrlausn tiltekins stjórnsýslumáls.

Umboðsmaður taldi að af erindi A yrði ráðið að því hefði fyrst og fremst verið beint að félags- og tryggingamálaráðherra og af lestri þess yrði enn fremur ekki séð að viðfangsefni þess hefði verið stjórnsýslumál sem þá hefði verið til úrlausnar í fjármálaráðuneytinu. Þá lá fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra svaraði erindi A. Að þessu virtu og eftir að hafa farið yfir bréf A til fjármálaráðherra var það niðurstaða umboðsmanns að þar væri ekki um að ræða erindi sem fullyrt yrði að meginreglan um skyldu til skriflegs svars ætti við um. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar.