Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Menntamál. Einkaskólar. Réttindi og skyldur nemenda.

(Mál nr. 6187/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð og niðurstöðum annars vegar Háskólans í Reykjavík og hins vegar áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í tengslum við mál sem varðaði m.a. framvindu hans í námi við lagadeild skólans. Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 29. desember 2010, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í tilefni af þeim hluta kvörtunar A sem beindist að Háskólanum í Reykjavík tók umboðsmaður fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, væri það hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. sömu laga næði starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hefðu opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður benti á að Háskólinn í Reykjavík væri ekki opinber háskóli undir yfirstjórn mennta- og menningarmálaráðherra heldur hlutafélag sem hlotið hefði viðurkenningu menntamálaráðherra á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, þ. á m. á fræðasviði félagsvísinda. Fulltrúar eigenda félagsins, þ.e. stjórn Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, skipuðu háskólaráð Háskólans í Reykjavík sem markaði stefnu háskólans, ákvæði stofnun nýrra deilda, og ákvarðaði meginstarfstilhögun háskólans. Jafnframt ákvæði það skólagjöld. Umboðsmaður fékk því ekki annað séð en kvörtun A, að því leyti sem hún varðaði Háskólann í Reykjavík, beindist að ákvörðun og starfsemi einkaaðila.

Umboðsmaður taldi að Háskólanum í Reykjavík hefði ekki verið fengið að lögum opinbert vald til að taka ákvörðun um réttindi og skyldur manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Hann tók hins vegar fram að í hlut umboðsmanns gæti komið að kanna hvort athugun áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema á meðferð einkarekins háskóla á máli, er varðar réttindi og skyldur nemanda, hefði verið fullnægjandi og í samræmi við gildandi lög og reglur. Í slíkum tilvikum beindist athugun umboðsmanns einkum að því hvort áfrýjunarnefndin hefði sinnt því verkefni sínu að taka afstöðu til þess hvort hlutaðeigandi háskóli hefði leyst úr máli nemanda í samræmi við þau lög og reglur sem gilda um starfsemi viðkomandi skóla, hvort nefndin hefði gætt réttra málsmeðferðarreglna við athugun sína og dregið forsvaranlegar ályktanir af þeim upplýsingum sem hún hefði undir höndum. Umboðsmaður tók síðan meðferð áfrýjunarnefndarinnar á máli A til athugunar en taldi ekki ástæðu til að aðhafast vegna hennar og lauk athuguninni.