Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Löggildingar.

(Mál nr. 6819/2012)

A kvartaði yfir því að samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, gilti löggilding vigtarmanns einungis í tíu ár og taldi það stangast á við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár. Hann kvartaði einnig yfir 27. gr. sömu laga, en í ákvæðinu segir: „Fullgilt vottorð löggilts vigtarmanns er sönnun um þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið“. A taldi ekki eðlilegt að gera vigtara ábyrga fyrir öðru en vigt.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 31. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að kvörtun hans lyti að fyrirkomulagi sem löggjafarvaldið hefði ákveðið að skyldi gilda en samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það væri því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess á grundvelli kvörtunar hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Þá varð ekki annað séð en að Alþingi hefði tekið afstöðu til þeirra mismunandi hagsmuna sem á kynni að reyna í málum sem þessum og skýrar reglur settar. Það yrði því að líta svo á að Alþingi hefði talið þau sjónarmið sem þar var byggt á málefnaleg. Með tilliti til þessarar skýru afstöðu Alþingis taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að fjalla frekar um sjónarmið A um brot á jafnræðisreglu á grundvelli þeirra heimilda fram koma í 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997.