Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Sjómenn.

(Mál nr. 6844/2012)

A kvartaði yfir því að ekki væru gefnar út viðurkenndar sjóðferðabækur í samræmi við samþykktir ILO.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í bréfi umboðsmanns til A kom fram að samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun væri hægt að fá sjóferðabækur hjá stofnuninni sem einkum væru notaðar til að sanna siglingatíma á erlendum skipum en á íslensk skip þyrfti hins vegar að lögskrá sjómenn í lögskráningarkerfi sjómanna. Af erindi A varð ekki ráðið hvort hann hefði nú þegar óskað formlega eftir því við Siglingastofnun að fá útgefna nýja sjóferðabók. Umboðsmaður taldi því rétt, í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að hann óskaði eftir formlegu svari Siglingastofnunar við beiðni um sjóferðabók og yrði hann ósáttur við svör stofnunarinnar gæti hann freistað þess að bera málið undir innanríkisráðuneytið, sbr. 3. tölul. K-liðar 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer innanríkisráðherra með yfirstjórn siglingarmála. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef hann teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu Siglingastofnunar og síðar eftir atvikum innanríkisráðuneytisins gæti hann leitað til sín á ný.