Fullnustugerðir og skuldaskil. Nauðungarsala.

(Mál nr. 6831/2012)

A kvartaði yfir því að sýslumannsembætti hefði sent tilkynningar til fjölda íbúðareiganda um nauðungarsölu vegna skulda við tiltekið fjármálafyrirtæki og væri m.a. fyrirhugað að auglýsa nauðungarsölu á eign A tilgreindan dag. Í kvörtuninni kom fram að í málinu væri deilt um afturvirka vexti af gengisláni og slík mál væru nú til umfjöllunar hjá Hæstarétti og ESA. A óskaði þess að á meðan málið væri til meðferðar hjá dómstólum yrðu aðgerðir fjármálafyrirtækisins stöðvaðar. Í kvörtun kom m.a. fram að umboðsmaður skuldara hefði ekki fjallað um endurútreikning fjármálafyrirtækisins á láninu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að með hliðsjón af b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla, fjalli umboðsmaður almennt ekki um mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum. Þá geri lög nr. 90/1991, um nauðungarsölu, ráð fyrir því að leysa skuli úr ágreiningi um nauðungarsölu fyrir dómstólum og því falli það utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis að fjalla um slíkan ágreining, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Að lokum benti umboðsmaður A á að hún gæti borið endurútreikning lánsins undir umboðsmann skuldara og yrði hún ósátt við niðurstöðu embættisins gæti hún leitað til sín á ný.