A kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að hafna beiðni um endurupptöku lögreglumáls, er varðaði kæru á hendur nafngreindum einstaklingi vegna meintra kynferðisbrota hans gegn dóttur A á árinu 2005.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. janúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umrætt lögreglumál var fellt niður árið 2007 á þeim grundvelli að eins og rannsóknargögnum væri háttað yrði, gegn eindreginni neitun kærða, að telja málið ólíklegt til sakfellis. Beiðni A um endurupptöku málsins var hafnað á þeim grundvelli að að skilyrðum 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, væri ekki fullnægt. Í ákvæðinu kemur fram að hafi rannsókn á hendur sakborningi verið hætt vegna þess að sakargögn hafa ekki þótt nægileg til ákæru eigi ekki að taka rannsókn upp á ný gegn honum nema ný sakargögn séu fram komin eða líklegt sé að þau komi fram. A taldi að í ljósi nýrra gagna væri óhugsandi annað en að brotið hefði verið gegn barninu. Um var að ræða fjögur ný vottorð lækna og sérfræðinga sem lýstu ástandi, líðan og meðferð dóttur hennar. Í skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns kom fram að embættið hefði talið að það sem kæmi fram í vottorðunum nægði ekki til endurupptöku málsins. Að fengnum skýringum ríkissaksóknara gat umboðsmaður ekki fallist á það með A að synjun ríkissaksóknara hefði ekki grundvallast á mati á nýju gögnunum eða að engin eiginleg rök hefðu verið færð fyrir því hvers vegna upplýsingar í gögnunum nægðu ekki til endurupptöku rannsóknarinnar. Með hliðsjón af því og gögnum málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að ríkissaksóknari hefði dregið óforsvaranlegar ályktanir af fyrirliggjandi gögnum í málinu og tók í því sambandi fram að ríkissaksóknari hefði ákveðið svigrúm, meðal annars að virtri sönnunarstöðu, til að meta hvort líklegt væri að sakfelling næði fram í máli. Með vísan til þessa lauk umboðsmaður umfjöllun sinni um málið.