Menntamál. Framhaldsskólar.

(Mál nr. 6807/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og fór fram á að ekki yrði fallið frá því fyrirkomulagi við innritun nýnema í framhaldsskóla, sem tekið var upp vorið 2010, að nemendum í tilteknum grunnskólum var veittur forgangur að 45% nýnemaplássa í vissum framhaldsskólum með hliðsjón af búsetu og samgöngum. Í áliti frá 29. desember 2011 í málum nr. 5994/2010 og 6009/2010 komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að sú regla hefði ekki verið sett samkvæmt viðhlítandi stoð í lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að með áliti í málum nr. 5994/2010 og 6009/2010 hefði umrædd forgangsregla ekki afnumin. Þá tók hann fram að umboðsmaður Alþingis hefði ekki réttarskipandi vald og gæti ekki tekið ákvarðanir sem binda enda á fyrirliggjandi ágreining. Álit umboðsmanns Alþingis væru með öðrum orðum ekki bindandi fyrir hlutaðeigandi stjórnvald heldur færi það eftir frekari athöfnum þess sem leitað hefði til umboðsmanns og viðbrögðum stjórnvaldsins hver yrði framgangur málsins. Umboðsmaður benti jafnframt á að í frétt á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins 3. janúar 2012 hefði komið fram að innritunarfyrirkomulagið yrði endurskoðað í ljósi álitsins og endurskoðað fyrirkomulag kynnt innan skamms. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast í tilefni af erindi A en benti henni á að hann gæti freistað þess að koma sjónarmiðum sínum að hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. (Sjá einnig mál 6798/2012, 6799/2012, 6800/2012, 6801/2012, 6802/2012, 6803/2012, 6804/2012, 6806/2012, 6808/2012 og 6812/2012.)