Menntamál. Framhaldsskólar.

(Mál nr. 6809/2012)

A, framhaldsskólakennari, kvartaði yfir ákvæðum í aðalnámskrá framhaldsskóla um afreksfólk og túlkun stjórnenda skólans sem hann kennir við á þeim. Í ákvæðinu kemur fram að komið skuli til móts við afreksfólk á þann hátt að fjarvera þess á námstíma vegna keppnis- og/eða æfingaferða reiknist ekki inn í skólasóknareinkunn nemenda og fjarvera á prófatíma vegna keppnis- og/eða æfingaferða útiloki ekki nemendur frá því að gangast undir námsmat í lok skólaárs eða námsannar. Leitast skal við að gefa nemandanum tækifæri til að ljúka prófum eða lokaverkefnum eftir því sem við verður komið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Kvörtun A laut annars vegar að því að aðrir framhaldsskólanemar yrðu fyrir mismunun vegna ákvæðanna. Þar sem einungis sá sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangsleitni getur borið fram kvörtun við umboðsmann Alþingis, sbr. 4. gr. laga nr. 85/1997, fjallaði umboðsmaður ekki um kvörtunina að þessu leyti. Hann benti A hins vegar á að hann ætti þess kost að beina erindinu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem ber að lögum ábyrgð á gerð aðalnámskrár framhaldsskóla þ. á m. að aðalnámskrá sé í samræmi við jafnræðisreglur, sbr. 3. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, og 3. tölul. a-liðar 6. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Hins vegar taldi A fyrirkomulagið vega að starfsheiðri framhaldsskólakennara og í vísaði hann í því sambandi til þess að almennt námsmat væri lögum samkvæmt í þeirra höndum, sbr. 30. gr. laga nr. 92/2008. Að þessu leyti beindist kvörtunin að skólanum sem A starfaði hjá og að mennta- og menningarmálaráðherra. Umboðsmaður tók fram að ágreiningur milli tveggja stjórnvalda félli utan við starfssvið sitt. Þá fékk umboðsmaður ekki séð að A hefði borið erindið, að því leyti sem það varðaði rangsleitni sem hann taldi sig persónulega hafa orðið fyrir að hálfu þessara stjórnvalda, undir stjórnendur skólans eða ráðuneytið. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að leita eftir afstöðu skólans og ráðuneytisins til álitaefnisins en væri hann enn ósáttur að fenginni afstöðu þeirra væri honum heimilt að leita til sín á ný.