Menntamál. Sérnám.

(Mál nr. 6797/2012)

A kvartaði yfir því hvernig Tækniskólinn/Skipstjórnarskólinn hefði auglýst nám á skipstjórnarbraut A. Hann taldi auglýsingu skólans hafa verið villandi þar sem auglýst hefði verið að þeir sem lykju brautinni gætu m.a. aflað sér réttinda til að gegna stöðu stýrimanns á skipum allt að 45 metrum að skráningarlengd, en í raun væri einungis átt við réttindi til að starfa sem undirstýrimaður.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að Tækniskólinn væri rekinn sem einkaskóli og félli því sem slíkur ekki undir stjórnsýslu ríkisins og þar með eftirlit umboðsmanns Alþingis, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Hins vegar benti hann A á að með tilliti til eftirlitshlutverks mennta- og menningarmálaráðuneytisins með starfsemi framhaldsskóla, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, og 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 6. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, kynni honum að vera fær sú leið að bera umkvörtunarefnið undir ráðuneytið og fá afstöðu þess til þess hvort skólinn hefði um þetta atriði hagað starfsemi sinni í samræmi við lög og þær reglur sem ráðuneytið hefur sett um umrætt nám. Teldi hann sig beittan rangindum með úrlausn ráðuneytisins gæti hann leitað til sín á ný.