Skattar og gjöld. Afslættir og bætur.

(Mál nr. 6778/2011)

A kvartaði yfir því að yfirskattanefnd hefði, með úrskurði vegna kæru hans á því að ríkisskattstjóri hefði hafnað beiðni hans um skattaívilnun gjaldárið 2010, komist að þeirri niðurstöðu að ekki lægi fyrir kæranleg ákvörðun í málinu og framsent kæruna til ríkisskattstjóra. A taldi framsendinguna vera fallna til þess að tefja málið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. janúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum yfirskattanefndar kom fram að við meðferð málsins fyrir yfirskattanefnd hefði ekki legið fyrir að ríkisskattstjóri hefði kveðið upp kæruúrskurð um álagningu opinberra gjalda A gjaldárið 2010 þar sem m.a. var tekin afstaða til ívilnunarbeiðni sem fram kom í skattframtali hans. Í skýringunum kom jafnframt fram að ef kæruúrskurðurinn hefði legið fyrir hjá yfirskattanefnd hefði málið verið lagt í annan farveg. Að athuguðu máli taldi yfirskattanefnd rétt á að líta á erindi A til sín sem endurupptökubeiðni og kvaðst mundu taka málið til meðferðar svo fljótt sem verða mætti að fenginni umsögn ríkisskattstjóra. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um málið en tók fram að ef óhóflegur dráttur yrði á afgreiðslu yfirskattanefndar á málinu gæti A leitað til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi.