Skattar og gjöld. Afslættir og bætur.

(Mál nr. 6822/2012)

A kvartaði yfir því að þar sem hún byggi í nýbyggingu ætti hún ekki rétt á skattaafslætti vegna átaksins „Allir vinna“, en átakið felur í sér að heimilt er að draga frá tekjuskattstofni 50% af fjárhæð sem greidd er vegna vinnu við viðhald og endurbætur á íbúðar- og frístundahúsnæði til eigin nota.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Þar sem umboðsmaður fékk ekki betur séð en að það atriði sem vikið var að í kvörtun A lyti að þáttum sem löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið afstöðu til taldi hann bresta skilyrði til þess að taka málið til frekari athugunar.