Skattar og gjöld. Utvarpsgjöld.

(Mál nr. 6739/2011)

A kvartaði yfir álagningu útvarpsgjalds á félag sem var afmáð úr firmaskrá árið 2010. Erindinu fylgdi afrit af bréfi til tollstjóra vegna málsins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. janúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í bréfi tollstjóra til umboðsmanns vegna málsins kom fram að samkvæmt tekjubókhaldskerfi ríkisins hefði ríkisskattstjóri með skattbreytingu fellt álagningu gjaldsins niður og að tollstjóri vænti þess að málsaðilum hefði verið sent bréf um þær málalyktir. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um málið.