Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6688/2011)

Hinn 6. október 2011 kvartaði A yfir því að innanríkisráðuneytið hefði ekki svarað erindi sem hann sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 18. mars 2009 vegna embættisfærslna sýslumanns sem ákæranda í nánar tilgreindum sakamálum. A hafði áður leitað til umboðsmanns vegna málsins og var því þá lokið vegna þeirra fyrirætlana innanríkisráðuneytisins að svara erindinu í ágústmánuði 2011. Það gekk ekki eftir.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á þessu máli með bréfi, dags. 31. janúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að erindinu hefði verið svarað 6. janúar 2012. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtun A og lauk athugun sinni á málinu. Hann ákvað þó að rita innanríkisráðherra bréf þar sem hann kom á framfæri tilteknum ábendingum vegna stjórnsýslu í málinu. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafði á sínum tíma framsent ríkissaksóknara málið en ríkissaksóknari ekki talið ástæðu til að hefja rannsókn sakamáls á grundvelli kæruatriða sem komu fram í bréfi A. A hafði þá snúið sér á ný til ráðuneytisins en ekki var kallað eftir greinargerð ríkissaksóknara fyrr en 9 mánuðum síðar. Þá leið rúmlega eitt ár frá því að ráðuneytinu barst greinagerðin þar til A var svarað. Umboðsmaður taldi því að innanríkisráðuneytinu hefði borið að gæta betur að málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga í máli A og kom þeirri ábendingu á framfæri að betur yrði gætt að þessu atriði við meðferð hliðstæðra mála í framtíðinni.