Svör við erindum. Rökstuðningur eða skýringar.

(Mál nr. 6752/2011)

Hinn 29. nóvember 2011 kvartaði A yfir því að sér hefðu ekki borist svör við fyrirspurn til Reykjavíkurborgar annars vegar um framkvæmd þeirrar stefnu að gera eldra fólki kleift að dvelja sem lengst á heimilum sínum og hins vegar um mælaleigu hjá Orkuveitu Reykjavíkur. A kvartaði einnig yfir svörum Orkustofnunar við erindi sem hann sendi varðandi rekstrarkostnað orkumæla Orkuveitu Reykjavíkur.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum Reykjavíkurborgar kom fram að sá þáttur fyrirspurnarinnar er varðaði mælaleigu hjá Orkuveitu Reykjavíkur hefði verið framsendur orkuveitunni og að A hefði verið tilkynnt um það með bréfi, dags. 24. nóvember 2011. Honum hefði svo verið sent svar Orkuveitu Reykjavíkur 9. desember 2011. Fyrir mistök hefðu starfsmenn borgarinnar ekki gert sér grein fyrir því að erindið væri tvíþætt, en fyrirspurninni hefði verið svarað að öðru leyti með bréfi dags. 5. janúar 2012. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan hluta kvörtunar A. Þeim þætti kvörtunarinnar er vörðuðu svör Orkustofnunar fylgdu engin gögn. Ekki kom fram hvenær A sendi Orkustofnun erindið eða hvenær svör stofnunarinnar hefðu borist. Umboðsmaður taldi því kvörtunarefnið ekki nægilega tilgreint og ekki stutt nægjanlegum gögnum til að vera tækt til umfjöllunar. Hann lauk því umfjöllun sinni um málið en tók fram að A gæti leitað til sín á ný en þá þyrfti að koma fram við hvaða ákvarðanir eða athafnir Orkustofnunar hann gerði athugsemdir og kvörtunin yrði að vera studd viðeigandi gögnum.