Svör við erindum. Viðtal við ráðherra eða forstöðumann.

(Mál nr. 6718/2011)

Hinn 8. nóvember 2011 kvartaði A yfir því að hafa beðið í átta mánuði eftir svari velferðarráðuneytisins við ósk hans um viðtal við ráðherra um skyldu atvinnuleitenda til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum, viðurlög við brotum gegn þeirri skyldu og túlkun á 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2006 þar sem fram kemur að þjónusta ráðgjafa Vinnumálastofnunar skuli miðast við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins atvinnuleitanda. Fram kom í samtali A við starfsmann umboðsmanns að hann hefði m.a. í samtali við starfsmann velferðarráðuneytisins nefnt hvort einhver annar en ráðherra gæti aðstoðað sig.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. janúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum velferðarráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að A hefði rætt símleiðis við starfsmann ráðuneytisins tilgreindan dag og afgreiðslu máls hans hefði lokið sama dag. Í bréfi A til umboðsmanns kom fram að hann hefði átt símasamskipti við starfsmann ráðuneytisins og einnig viðtal við lögfræðing í ráðuneytinu en hefði verið óánægður með svörin. Í ljósi þess að af leiðbeiningarregla 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttarins leiðir ekki að einstaklingar eigi almennt fortakslausan rétt til að velja sér við hvaða starfsmenn stjórnvalds, þ. á m. ráðherra, þeir eiga samskipti við í því skyni að fá aðstoð eða leiðbeiningar um starfssvið stjórnvaldsa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins við erindi A. Þar sem engin gögn lágu fyrir um hvert hefði verið inntak þeirra upplýsinga og leiðbeininga sem starfsmenn ráðuneytisins veittu A hafði umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við þau svör sem A fékk. Hann benti A hins vegar á að hann gæti borið erindið skriflega upp við velferðarráðuneytið æskti hann nánari svara. Yrði hann ósáttur við meðferð ráðuneytisins á skriflegu erindi gæti hann leitað til sín á ný vegna þess.