Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga.

(Mál nr. 6848/2012)

A kvartaði yfir því að stjórn Bankasýslu ríkisins hefði synjað sér um upplýsingar um fjóra umsækjendur um starf forstjóra stofnunarinnar sem drógu umsóknir sínar til baka. Þá taldi A að brotið hefði verið gegn góðum stjórnsýsluháttum með því að birta ekki opinberlega upplýsingar um alla umsækjendur strax eftir að umsóknarfrestur var liðinn, þar með talið um þá sem drógu umsóknir sínar til baka.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í erindi A kom m.a. fram að hann hefði kært synjunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, en að hann teldi aðra þætti málsins heyra undir umboðsmann. Umboðsmaður taldi hinsvegar, í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að ekki væru skilyrði að lögum til að taka erindið til frekari meðferðar, þ. á m. um það atriði hvort bankasýslunni hefði borið að birta lista yfir alla umsækjendur strax eftir af umsóknarfresturinn var liðinn, enda heyrði það undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fjalla um það. Hann benti A hins vegar á að ef hann teldi sig enn rangindum beittan að fenginni úrlausn úrskurðarnefndarinnar gæti hann leitað til sín að nýju og jafnframt ef dráttur yrði á svörum úrskurðarnefndarinnar við erindi hans.