Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 6883/2012)

A lagði fram erindi hjá umboðsmanni Alþingis annars vegar vegna launa og starfskjara aðstoðarmanna ráðherra og hins vegar vegna áskriftargjalds fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 20. febrúar 2012.

Umboðsmaður leit svo á að erindi A fæli ekki í sér kvörtun heldur ábendingu um hugsanlega meinbugi á lögum, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997. Fyrra atriðið varðaði það hvort meinbugir kynnu að vera á 22. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, þar sem kjararáð úrskurðaði hinn 7. júní 2007 að ekki skyldi heyra undir ráðið að ákveða laun og starfskjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands, að undanskildum skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Af því tilefni benti umboðsmaður A á að með lögum nr. 168/2007 hefði lögum um kjararáð verið breytt á þá leið að auk þeirra sem áður voru taldir upp í 1. gr. laganna skyldi kjararáð ákveða laun ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og forstöðumanna ríkisstofnana. Hvað varðaði áskriftargjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði, sbr. lokamálsl. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 15/2005, sbr. 14. gr. b í lögum nr. 88/1991, þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna þess, m.a. í ljósi fjölda mála sem voru til meðferðar hjá embættinu. Umboðsmaður lauk því umfjöllun sinni um málið en benti A jafnframt á að ef hann hefði hug á að vekja athygli löggjafans á sjónarmiðum sínum gæti hann freistað þess að senda erindið þingmanni eða ráðherra.