Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6886/2012)

A kvartaði yfir setningu laga nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nánar tiltekið þeirri breytingu sem varð á 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, þ.e. að orðin „skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum“ voru felld brott úr ákvæðinu. Eftir breytinguna teljast slíkar greiðslur til tekna í skilningi laganna og geta því haft áhrif til skerðingar á bótagreiðslur elli- og örorkulífeyrisþega.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 85/1997, og þar með hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum, þ.m.t. hvort lög væru í andstöðu við stjórnarskrá eða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefði undirgengist. Þá væri ekki hægt að kvarta til umboðsmanns Alþingis vegna hugsanlegra meinbuga á lögum, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, þótt vitanlega væri öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingu um slík atriði. Umboðsmaður ákvæði hins vegar sjálfur hvort heimild 11. gr. skyldi nýtt, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi ekki skilyrði að lögum til að fjalla frekar um kvörtunina og lauk umfjöllun sinni um hana.