Skattar og gjöld. Endurgreiðsla aðflutningsgjalda og söluskatts af efni og vélum vegna framkvæmda við vatnsaflsstöð.

(Mál nr. 155/1989)

Máli lokið með áliti, dags. 27. júní 1991.

A taldi að, fjármálaráðuneytið hefði ekki virt það jafnræði í stjórnsýslu, sem því bæri að hafa í heiðri, er það synjaði beiðni hans um endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum og söluskatti af efni og vélum vegna framkvæmda við vatnsaflsstöð. Ráðuneytið taldi, að A uppfyllti ekki skilyrði fyrir slíkri endurgreiðslu. Fram kom hjá A, að hann taldi sig hafa fengið áreiðanlegar upplýsingar um, að þrír aðilar hefðu fengið endurgreidd aðflutningsgjöld og söluskatt vegna vatnsaflsvirkjana, sem þeir hefðu ráðist í um svipað leyti og hann, þótt eins hefði staðið á hjá þeim að því er skilyrði áhrærði og honum sjálfum. Í skýringum fjármálaráðuneytisins kom fram, að ekki hefðu fundist hjá ráðuneytinu eða í gögnum Ríkisendurskoðunar önnur gögn vegna beiðni umræddra þriggja aðila en beiðni um endurgreiðslu á söluskatti vegna kaupa á plaströrum, sem notuð voru í vatnsaflsstöð á einum hinna þriggja bæja. Hefði sú beiðni verið árituð af þáverandi fjármálaráðherra. Samkvæmt skýringum fjármálaráðuneytisins hefði það verið gert, þrátt fyrir að skilyrði til endurgreiðslu gjalda hefðu ekki verið uppfyllt, en ekki yrði séð, hver hefði orðið endanleg afgreiðsla málsins, þar sem um hana hefðu ekki fundist önnur gögn. Umboðsmaður taldi, að ekki væri unnt að staðhæfa með vissu, að endurgreiðsla á aðflutningsgjöldum og söluskatti til þeirra þriggja aðila, sem A vísaði til, hefði farið fram. Til að staðreyna slíkt þyrfti að koma til frekari öflun upplýsinga, og þá með skýrslutökum fyrir dómi. Varð niðurstaða umboðsmanns sú, að hann taldi sér ekki fært, að taka kvörtun A til frekari athugunar eða láta uppi álit um það efni, sem hann byggði kvörtun sína á. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum sínum til fjármálaráðuneytisins, að það sæi til þess, að jafnan lægi fyrir í gögnum ráðuneytisins, hvaða afgreiðslu erindi, sem því bærust, hefðu endanlega fengið hjá ráðherra eða starfsmönnum ráðuneytisins.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 24. júlí 1989 var til mín leitað vegna A, er bjó að H í X-hreppi, vegna þeirrar ákvörðunar fjármálaráðuneytisins í bréfi, dags. 27. febrúar 1989, að synja honum um endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum og söluskatti af efni og vélum vegna framkvæmda við vatnsaflsstöð, er reist var við S-á í X-hreppi. Taldi A, að með ákvörðun þessari hefði fjármálaráðuneytið ekki virt það jafnræði í stjórnsýslu, sem því bæri að hafa í heiðri.

Af hálfu A var málsatvikum lýst svo, að hann hefði sumarið 1986 reist 38 kw vatnsaflsvirkjun við S-á og sótt um endurgreiðslu nefndra gjalda til fjármálaráðuneytisins á því ári en verið synjað. Kvaðst A hafa aflað sér þeirra upplýsinga, m.a. frá rafmagnsveitustjóra umdæmisins, að eigendur þriggja jarða í Y-hreppi og Z-hreppi í sömu sýslu hefðu fengið endurgreidd aðflutningsgjöld og söluskatt vegna vatnsaflsvirkjana, sem þeir hefðu reist um svipað leyti og hann sjálfur. Hefði hann því á ný sótt um endurgreiðslu gjaldanna en enn verið synjað með bréfi, dags. 27. febrúar 1989, þar sem ráðuneytið hefði rökstutt ákvörðun sína með því, að það skilyrði væri sett slíkri endurgreiðslu "að viðkomandi sveitabær gæti ekki notið raflýsingar frá hinum almennu veitum rafmagnsveitna". A taldi, að fjármálaráðuneytið hefði fallist á endurgreiðslu vegna fyrrnefndra þriggja bæja, þótt bæir þessir hefðu allir notið raflýsingar frá almennum rafmagnsveitum. Með því að synja sér um endurgreiðslu hefði ráðuneytið því ekki virt jafnræði í stjórnsýslu.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Í tilefni af kvörtuninni ritaði ég fjármálaráðherra bréf 10. ágúst 1989 og óskaði eftir að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, og léti mér í té þau gögn, sem málið vörðuðu. Jafnframt óskaði ég eftir að fá afhent ljósrit af gögnum ráðuneytisins varðandi afgreiðslur á endurgreiðslubeiðnum vegna þeirra bæja, sem A hafði tiltekið í bréfi til ráðuneytisins. Þessi beiðni var síðan ítrekuð með bréfum, dags. 16. október og 19. desember 1989 og 6. febrúar 1990.

Svar fjármálaráðuneytisins barst mér loks með bréfi, dags. 19. febrúar 1990, og þar segir m.a.:

"Kvörtun [A] mun til komin vegna þess að ráðuneytið hefur ítrekað synjað beiðni hans um endurgreiðslu aðflutningsgjalda og söluskatts af efni og vélum vegna framkvæmda við vatnsaflsstöð sem reist var við [S-á í X-firði]. Telur [A] að ráðuneytið hafi ekki haft í heiðri það jafnræði í stjórnsýslu sem því ber, sérstaklega þar sem öðrum aðilum hafi verið endurgreidd gjöld vegna sambærilegra framkvæmda og voru við [S-á].

Til svars erindinu tekur ráðuneytið fram eftirfarandi til skýringa:

1. Í 30. tl. 3. gr. laga nr. 120/1976, um tollskrár o.fl., var heimild til "að endurgreiða toll af þrýstivatnspípum, hverflum svo og hreyflum minni en 400 hestöfl DIN, til notkunar við raflýsingu á sveitabæjum, sem svari því að af vörum þessum sé greiddur 10% tollur". Sambærilega heimild er ekki að finna í 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 sem komu í stað laga nr. 120/1976.

2. Framangreind heimild tollskrárlaga var notuð þannig að ef vörur þær sem hér að ofan eru taldar báru meira en 10% toll var mismunurinn á því og hærri tolli endurgreiddur. Sérstakt tímabundið vörugjald var endurgreitt að fullu. Söluskattur var síðan endurreiknaður miðað við lækkaðan toll og niðurfellt sérstakt tímabundið vörugjald og mismunurinn endurgreiddur.

3. Svo sem að framan er greint var heimild þessi miðuð við vörur til notkunar við raflýsingu á sveitabæjum. Var jafnan við það miðað að bæir gætu ekki notið raflýsingar frá hinu almenna veitukerfi Rafmagnsveitna ríkisins. Við mat á því var óskað eftir staðfestingum Orkuráðs á því hvort viðkomandi bær gæti notið þjónustu hinnar almennu rafveitu. Er rétt að benda á að Rafmagnsveitur ríkisins svo og staðbundnar rafveitur gátu notið niðurfellingar eða endurgreiðslu gjalda vegna vara sem notaðar voru til virkjanaframkvæmda þeirra, sbr. heimildir í 6. gr. fjárlaga hvert ár eða fram til ársins 1987.

Að því er varðar beiðni [A], og synjanir ráðuneytisins á beiðnum hans skal bent á að samkvæmt staðfestingu Orkuráðs, dags. 8. desember 1987, voru [H] tengdir við raforkukerfi Rafmagnsveitna ríkisins þar til einkarafstöð var tekin í notkun þar og býlið aftengt við hið almenna raforkukerfi. Á þeim grundvelli og með vísan til þess er að framan greinir var beiðni [A] synjað af ráðuneytinu....

Að því er varðar endurgreiðslu gjalda til annarra tilgreindra aðila sem reist hafa vatnsaflsstöðvar skal tekið fram að farið var í gegnum skjalasafn ráðuneytisins til að reyna að finna þær afgreiðslur sem [A] vísar til máli sínu til stuðnings. Kemur m.a. fram í bréfi lögmanns [A] að "samkvæmt óyggjandi upplýsingum sem umbjóðandi minn hefur aflað sér, m.a. hjá [J], rafmagnsveitustjóra RARIK á [...], hafa þrír bæir í [Y-hreppi] og [Z-hreppi], [...sýslu], fengið endurgreidd aðflutningsgjöld og söluskatt vegna vatnsaflsvirkjana sem þeir réðust í um svipað leyti og umbjóðandi minn." Vegna þessa þykir ráðuneytinu rétt að lögð verði fram gögn sem sýni fram á að þessi staðhæfing sé rétt því í gögnum ráðuneytisins er ekki að finna nein þau gögn sem sýna fram á þetta. Jafnframt skal bent á að hvorki erindi né önnur afgreiðsla mála sem þessara fer í gegnum Rafmagnsveitur ríkisins eða umboðsmenn hennar. Hins vegar fannst við leit hjá Ríkisendurskoðun bréf frá [D], dags. 14. desember 1984, þar sem óskað er endurgreiðslu söluskatts vegna kaupa á plaströrum frá Reykjalundi sem notaðar munu hafa verið í byggingu vatnsaflsstöðvar til heimilisnota á bænum [V] í [Y-hreppi]. Þáverandi fjármálaráðherra samþykkti erindið, sbr. áritun á það þrátt fyrir að skilyrði til endurgreiðslu gjalda hafi ekki verið uppfyllt. Ekki verður hins vegar séð hver endanleg afgreiðsla málsins var þar sem engin gögn um hana hafa fundist önnur en þau sem hér fylgja hjálagt....

Að lokum skal ítrekað að endurgreiðslur gjalda vegna vatnsaflsframkvæmda hafa ekki farið fram nema að uppfylltum skilyrðum þeim sem fram koma í 3. málsgrein bréfs þessa þó með þeirri undantekningu sem fram kemur varðandi ákvörðun þáverandi fjármálaráðherra um afgreiðslu erindis bændanna á [V]."

Með bréfum, dags. 20. febrúar 1990 og 12. mars 1991, gaf ég lögmanni A kost á að senda mér athugasemdir vegna framangreinds bréfs fjármálaráðuneytisins. Í síðara bréfi mínu tók ég fram, að eins og efni kvörtunar A væri háttað og þeim svörum, sem mér hefðu borist í tilefni af henni frá fjármálaráðuneytinu, teldi ég óhjákvæmilegt annað en A tæki afstöðu til svara ráðuneytisins og aflaði eftir atvikum nánari gagna til stuðnings því, að fjármálaráðuneytið hefði ekki haft í heiðri það jafnræði í stjórnsýslunni, er því hafi borið að virða við afgreiðslu á beiðni hans um endurgreiðslu nefndra gjalda, sem um er fjallað í kvörtuninni.

Svar lögmannsins barst mér í bréfi, dags. 18. apríl 1991, og þar kom fram að umbjóðandi hans hefði ekki aðstæður til að afla frekari gagna til stuðnings kvörtun sinni en henni hefðu fylgt í upphafi. Síðan sagði í bréfi lögmannsins:

"Mér virðist að þá ályktun megi draga af bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 19. febrúar 1990, að endurgreiðsla hafi farið fram á aðflutningsgjöldum og söluskatti til tiltekinna aðila þótt lagaskilyrði til endurgreiðslu hafi ekki verið til staðar. Slíkt hefur að sjálfsögðu í för með sér mismunun, í þessu tilviki í garð umbjóðanda míns. Legg ég það í yðar vald, herra umboðsmaður, hvort þér sjáið ástæðu til að kanna nánar tilvik það sem vitnað er til í fyrrgreindu bréfi fjármálaráðuneytisins."

III. Niðurstaða.

Í áliti mínu, dags. 27. júní 1991, var niðurstaðan svohljóðandi:

"Kvörtun A er reist á því, að fjármálaráðuneytið hafi ekki haft í heiðri jafnræði í stjórnsýslunni, þegar það synjaði honum um endurgreiðslu á aðflutningsgjöldum og söluskatti af efni og vélum vegna framkvæmda við umrædda vatnsaflsstöð. Hann styður kvörtun sína með því að vísa til þess, að ráðuneytið hafi í þremur öðrum sambærilegum tilvikum samþykkt beiðni um endurgreiðslu þeirra sömu gjalda og hann hafi farið fram á. Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins frá 19. febrúar 1990 kemur fram, að ekki hafa fundist hjá ráðuneytinu eða í gögnum Ríkisendurskoðunar önnur gögn vegna beiðni umræddra þriggja aðila en beiðni um endurgreiðslu á söluskatti vegna kaupa á plaströrum, sem notuð voru í vatnsaflsstöð á einum hinna þriggja bæja. Sú beiðni var árituð af þáverandi fjármálaráðherra, en fjármálaráðuneytið segir, að það hafi verið gert þrátt fyrir að skilyrði til endurgreiðslu gjalda hafi ekki verið uppfyllt. Hins vegar kemur fram hjá fjármálaráðuneytinu að ekki verði séð, hver hafi orðið endanleg afgreiðsla málsins, þar sem um hana hafi ekki fundist önnur gögn en þau, sem mér voru send með bréfi ráðuneytisins. Af þeim gögnum verður ekki ráðið, hver hafi orðið endanleg afgreiðsla nefndrar beiðni. Ég tel því ekki unnt að staðhæfa með vissu, að endurgreiðsla á aðflutningsgjöldum og söluskatti til þeirra þriggja aðila, sem A vísar til í kvörtun sinni, hafi átt sér stað. Til að staðreyna slíkt þyrfti að koma til frekari öflun upplýsinga, og þá með skýrslutökum fyrir dómi. Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða mín, að mér sé ekki fært að taka kvörtun A til frekari athugunar eða láta uppi álit um það efni, sem hann byggir kvörtun sína á. Er afskiptum mínum af málinu því lokið.

Í tilefni af athugun minni á kvörtun A tel ég hins vegar ástæðu til að koma þeim tilmælum á framfæri við fjármálaráðuneytið, að séð verði til þess, að jafnan liggi fyrir í gögnum ráðuneytisins, hvaða afgreiðslu erindi, sem beint er til ráðuneytisins, hafi endanlega fengið hjá ráðherra eða starfsmönnum ráðuneytisins.

Það skal að síðustu tekið fram, að í áliti þessu og við athugun á kvörtun A hefur ekki verið hugað að öðrum atriðum við afgreiðslu á beiðni A, heldur en kvörtun hans beinist að."