Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6837/2012)

A kvartaði yfir reglum sem gilda um biðtíma og tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hafði fellt bótarétt A niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir á þeim grundvelli að starfslok hans hefðu ekki verið af gildum ástæðum í skilningi laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 6. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Umboðsmaður taldi því að hann gæti ekki tekið kvörtunina til meðferðar að því leyti sem hún laut beint að efni laga nr. 54/2006. Þá varð ekki ráðið af gögnum málsins að A hefði kært ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli sínu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 gat umboðsmaður því ekki tekið erindið til frekari meðferðar og lauk athugun sinni á því.