Börn. Forsjá, umgegngni og meðlagsgreiðslur.

(Mál nr. 6720/2011)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem ákvörðun sýslumannsembættis um að umgengnisréttar A við barn sitt skyldi ekki njóta við var felld úr gildi og lagt var fyrir sýslumann að taka kröfu móður barnsins þar að lútandi til lögmætrar meðferðar. Hins vegar var með sama úrskurði staðfest ákvörðun sýslumanns um að móður barnsins yrði ekki gert að greiða dagsektir í ríkissjóð til að koma á umgengni A við barnið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að 2. mgr. 48. gr. barnalaga nr. 76/2003 fæli ekki í sér fortakslausa skyldu fyrir sýslumann til að þvinga fram umgengni með álagningu dagsekta þegar fyrir lægi að umgengni hefði verið tálmuð. Til þess að dagsektum yrði ekki beitt þyrftu þó að liggja fyrir fullnægjandi gögn og rök sem bentu til þess að það væri andstætt hagsmunum barns að umgengni yrði þvinguð fram í samræmi við gildandi fyrirkomulag. Umboðsmaður taldi sig ekki, eins og atvikum var háttað í málinu, hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að það væri barninu ekki fyrir bestu að umgengni samkvæmt dómsátt frá 2005 yrði þvinguð fram með álagningu dagsekta.

Umboðsmaður taldi ekki heldur tilefni til að gera athugasemdir við að innanríkisráðuneytið hefði lagt fyrir sýslumann að taka umgengnisþátt málsins til nýrrar meðferðar og vísaði í því sambandi til þess að ástæða þess að þeim þætti málsins var vísað til nýrrar meðferðar sýslumanns í stað þess að úrskurða um það á æðra stjórnsýslustigi hefði verið að fyrri ákvörðun sýslumanns hefði verið talin haldin slíkum ágöllum að ekki yrði úr bætt í ráðuneytinu.

Þar sem úrskurður sýslumanns í málinu var kveðinn upp utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 voru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti fjallað sérstaklega um málsmeðferðartíma embættisins. Hann benti A jafnframt á að innanríkisráðuneytið hefði þegar brugðist við athugasemdum hans um afgreiðslutíma sýslumanns með tilteknum hætti. Hvað varðaði afgreiðslutíma innanríkisráðuneytisins þá benti umboðsmaður á að hann hefði áður haft til athugunar kvartanir frá A yfir afgreiðslutíma málsins og af því tilefni þegar lýst afstöðu sinni til þessa atriðis í kvörtuninni.

Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og þær athugasemdir sem A gerði við hæfi sýslumanns og fulltrúa hans taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu innanríkisráðuneytisins að ekkert í gögnum málsins gæfi tilefni til að líta svo á að fulltrúinn hefði vegna frávísunar málsins í mars 2009 eða undir meðferð málsins bakað sér vanhæfi. Þá taldi umboðsmaður að ummæli í bréfi sýslumannsfulltrúans til innanríkisráðuneytisins í tilefni af stjórnsýslukæru A til ráðuneytisins væru ekki þess eðlis að unnt væri að fullyrða að fulltrúinn hefði verið vanhæfur til afgreiðslu máls A á meðan á meðferð þess stóð. Hann benti A hins vegar á að ef hann teldi fulltrúann framvegis vanhæfan til meðferðar á málum sínum vegna ummælanna gæti hann vakið athygli sýslumanns á því og farið fram á að skorið yrði úr um hæfi hans áður en ákvörðun væri tekin um hvort hann skyldi njóta umgengnisréttar við barn sitt. Enn fremur fékk umboðsmaður ekki ráðið af upplýsingum prentuðum út af Facebook-síðu eiginkonu fulltrúans að tengsl fulltrúans og eiginkonu hans við sálfræðing og fulltrúa í barnaverndarnefnd hefðu verið slík að óhlutdrægni sýslumannsfulltrúans yrði með réttu dregin í efa og hann teldist af þeim sökum vanhæfur til meðferðar málsins.

Að lokum taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við tilvísun í úrskurði innanríkisráðuneytisins til staðhæfinga móður og tók fram að ekki yrði séð að ráðuneytið gerði þær að sínum.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á máli A en ákvað þó að rita innanríkisráðherra og sýslumanni bréf. Í bréfi sínu til sýslumanns gerði umboðsmaður athugasemdir við ummæli sýslumannsfulltrúa um A í bréfi til innanríkisráðuneytisins. Í ljósi þess langa tíma sem mál vegna umgengni A við barnið höfðu verið til afgreiðslu hjá stjórnvöldum í heild sinni óskaði umboðsmaður einnig eftir upplýsingum frá sýslumanni og innanríkisráðuneyti um atriði sem lúta almennt að málshraða og skyldum stjórnvalda til að gera eðlilegar ráðstafanir til að tryggja skjóta úrlausn mála um umgengnisrétt foreldra og barna þeirra. Jafnframt óskaði umboðsmaður eftir tilteknum upplýsingum um stöðu og framhald á máli A. Upplýsinganna var óskað til þess að umboðsmaður gæti áttað sig betur á almennum framgangi umgengnismála með það í huga hvort þörf sé á athugun þessara mála á almennum grundvelli.