Fangelsismál. Fullnustuúrræði.

(Mál nr. 6840/2012)

A kvartaði yfir því skilyrði fyrir fullnustu refsingar utan fangelsis undir rafrænu eftirliti sem kemur fram í 24. gr. b í lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. lög nr. 129/2011, þ.e. að fangi verði áður að hafa nýtt sér úrræði samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna um fullnustu utan fangelsis. Í því felst m.a. að fangi verður að búa á sérstakri stofnun eða heimili sem fangelsismálastofnun hefur gert samkomulag við og vera þar undir eftirliti. Í kvörtun A kom fram að til þessa hefði aðeins verið gerður einn slíkur samningur og því væri það að hluta til á valdi nefndar skipaðri af því heimili að ákveða hvort menn ættu möguleika á afplánun undir rafrænu eftirliti. Sú nefnd gæti neitað einstaklingum, sem sættu refsingu fyrir brot sem falla undir tiltekna brotaflokka, um vist. A óskaði því álits umboðsmanns á því hvort lög nr. 129/2011 stönguðust á við stjórnarskrá og kröfur um fagleg vinnubrögð í málaflokknum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af erindi A varð ekki séð að hann hefði borið umkvörtunarefni sitt undir fangelsismálastofnun og eftir atvikum í kjölfarið undir innanríkisráðuneytið, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga og 2. tölul. B-liðar forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, þar sem fram kemur að innanríkisráðuneytið fer með mál sem varða fullnustu refsinga, fangelsi og fangavist, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 49/2005. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því rétt að A freistaði þess að beina erindi sínu til þeirra aðila áður en hann fjallaði frekar um það. Umboðsmaður tók þó fram að eftir að A hefði leitað til fangelsismálastofnunar og eftir atvikum til innanríkisráðuneytisins gæti hann leitað til sín á ný.