Hagskýrslugerð o.þ.h.

(Mál nr. 6635/2011)

A kvartaði yfir því að engin opinber stofnun hefði tekið saman upplýsingar um fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda. Kvörtunin beindist að Hagstofu Íslands, Innheimtustofnun sveitarfélaga og Tryggingastofnun ríkisins en í samskiptum A við þessar stofnanir hafði komið fram sú afstaða þeirra að lagaskylda hvíldi ekki á þeim til að safna þessum upplýsingum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem ekki varð séð af lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, eða lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, að Innheimtustofnun sveitarfélaga eða Tryggingastofnun ríkisins hefðu lögmæltu hlutverki að gegna varðandi söfnun, úrvinnslu eða aðra meðferð tölfræðilegra upplýsinga taldi umboðsmaður að A væri ekki unnt að byggja rétt á þeim grundvelli að stofnanirnar hefðu ekki sinnt því starfi sínu með viðunandi hætti og lauk þeim þætti málsins með bréfi, dags. 4. nóvember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður ákvað hins vegar að rita Hagstofu Íslands bréf og óska eftir nánari upplýsingum og skýringum. Að skýringunum fengnum taldi umboðsmaður, einkum að virtu því svigrúmi Hagstofa Íslands hefur samkvæmt lögum nr. 163/2007 til að forgangsraða verkefnum sínum, að ekki væru forsendur til þess að fullyrða að það að taka ekki saman upplýsingar um fjölda einstæðra meðlagsgreiðenda væri í ósamræmi við þau lög sem gilda um störf hagstofunnar. Umboðsmaður tók hins vegar fram að A væri að sjálfsögðu frjálst að vekja athygli stjórnvalda eða Alþingis á sjónarmiðum sínum um mikilvægi þess að afla gagnanna. Þar sem hluti svara við fyrirspurn A til hagstofunnar vegna málsins var veittur munnlega lá ekki fyllilega fyrir hvaða svör honum voru veitt. Þá greindi A og Hagstofu Íslands að nokkru á um efni og eðli munnlegu skýringanna. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að fullyrða að svör hagstofunnar við fyrirspurnum A hefðu ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Engu að síður ákvað hann að rita Hagstofu Íslands bréf þar sem hann áréttaði mikilvægi þess að stofnunin hagaði málsmeðferð sinni, nánar tiltekið leiðbeiningarskyldu sinni, með þeim hætti að samrýmdist sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti.