Húsnæðismál. Fjöleignarhús.

(Mál nr. 6858/2012)

A óskaði álits umboðsmanns Alþingis á því hvort sameigandi að fasteign, er telst vera fjöleignarhús, sem óskað hefði eftir að gerð yrði eignaskiptayfirlýsing gæti krafist þess að fá hlutdeild í lóð viðkomandi fasteignar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem umboðsmaður fékk ekki séð af erindinu að það beindist að athöfn eða ákvörðun stjórnvalds í máli A taldi umboðsmaður ekki skilyrði til meðferðar málsins, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 85/1997, og lauk umfjöllun sinni um það. Til upplýsingar benti hann A þó á 16.–18. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, og að á vefsíðu velferðarráðuneytisins væri að finna gagnlegar upplýsingar um eignaskiptayfirlýsingar. Þá benti hann á að samkvæmt 80. gr. laga nr. 26/1994, gætu eigendur fjöleignarhúsa leitað til kærunefndar húsamála ef þá greindi á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögunum.