Lögreglu- og sakamál. Aðgangur að gögnum.

(Mál nr. 6810/2012)

A kvartaði yfir samskiptum sínum við lögreglu, einkum yfir því að honum hefði ekki verið leiðbeint um réttarstöðu sína, að kæru sem hann lagði fram hefði verið vísað frá og að beiðni hans um aðgang að dagbókarfærslum lögreglu hefði verið hafnað á þeim grundvelli að þær teldust ekki til gagna máls heldur væru vinnugögn sem eingöngu væru ætluð til dreifingar innan lögreglu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 6. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess, teldi hann lögreglu hafa brotið gegn starfsskyldum sínum greint sinn, að bera kvörtun sína að því leyti sem hún sneri að vinnulagi lögreglu undir innanríkisráðherra sem hefði almennt eftirlit með starfsháttum lögreglu, sbr. einnig 1. mgr. 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 3. tölul. B-liðar 1. mgr. 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og þar sem umboðsmaður hafði þegar til meðferðar aðra kvörtun frá A vegna staðfestingar ríkissaksóknara á ákvörðun lögreglu um að vísa kæru hans frá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla nánar um þá ákvörðun lögreglunnar. Að lokum taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess, þrátt fyrir að 14 daga kærufrestur væri liðinn fyrir nokkru, að senda ríkissaksóknara kæru vegna synjunar á beiðni hans um aðgang að dagbókarfærslum lögreglu, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og þá eftir atvikum með vísan til þess að honum hefði ekki verið leiðbeint um kærufrestinn, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu.