Lögreglu- og sakamál. Frávísun, niðurfelling, ákvörðun um að hefja ekki rannsókn.

(Mál nr. 6862/2012)

A óskaði eftir endurskoðun á afgreiðslu eldra erindi sínu til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðar ríkissaksóknara þar sem staðfest var ákvörðun lögreglu um að vísa frá kærum A á hendur þremur læknum sem höfðu komið að nauðungarvistun hennar á sjúkrahúsi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki séð að í erindi A væru færðar fram upplýsingar eða gögn sem gætu breytt fyrri afstöðu til erindis A. Þá tók umboðsmaður fram að athugasemdir hennar við aðdraganda nauðungarvistunarinnar og aðkomu læknanna að henni hefðu í það minnsta að einhverju leyti verið til umfjöllunar í fyrra máli hennar. Ljóst væri að þær ákvarðanir féllu að öðru leyti utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og því væri ekki unnt að taka þær til efnislegrar athugunar. Í tilefni af athugasemdum A um að umræddir læknar hefðu að hennar mati brotið gegn tilgreindum ákvæðum læknalaga nr. 53/1988, benti umboðsmaður að lokum á að hún gæti freistað þess að leita til embættis landlæknis með erindi eða eftir atvikum kvörtun þar að lútandi, sbr. lög nr. 41/2007, um landlækni. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að ef A kysi að leita til landlæknis og yrði ósátt við meðferð þess embættis á málinu gæti hún leitað til sín á ný.