Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 6869/2012)

A óskaði þess að eldra mál sitt hjá umboðsmanni Alþingis yrði tekið til nýrrar athugunar. Málið varðaði ákvörðun Félagsþjónustu Kópavogs um að synja beiðni A um úthlutun 60 ferða á mánuði með leigubifreið á strætisvagnafargjaldi vegna skóla, vinnu og tómstunda. Með ákvörðuninni voru honum hins vegar boðnar 60 ferðir á mánuði með ferðaþjónustu Kópavogs. Umboðsmaður hafði lokið athugun sinni málinu þar sem hann taldi rétt að A freistaði þess að bera málið undir velferðarráðuneytið áður en hann tæki kvörtunina til frekari athugunar. Velferðarráðuneytið vísaði erindi A hins vegar frá.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á erindi A með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að fyrri kvörtun A hefði ekki lotið að úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála í máli hans, þar sem ákvörðun sveitarfélagsins var staðfest, heldur að almennri framkvæmd þessara mála hjá Kópavogsbæ. Því hefði honum verið leiðbeint um að leita til velferðarráðuneytisins vegna almennra yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda velferðarráðherra með málaflokknum. Hann hefði hins vegar sent ráðuneytinu „stjórnsýslukæru“ þar sem hann hefði krafist endurskoðunar á ákvörðun sveitarfélagsins. Í ljósi þessa og þess hvernig erindi A til velferðarráðuneytisins var úr garði gert taldi umboðsmaður ekki forsendur til athugasemda af sinni hálfu við þá niðurstöðu ráðuneytisins að vísa erindinu frá enda væri niðurstaða úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála um að staðfesta ákvörðun Félagsþjónustu Kópavogs endanleg á stjórnsýslustigi. Umboðsmaður benti jafnframt á að Félagsþjónusta Kópavogs hefði nú með nýrri ákvörðun veitt samþykki sitt fyrir niðurgreiðslu á leigubifreiðakostnaði fyrir allt að 68 ferðir á mánuði. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki nægjanlegt tilefni til að aðhafast frekar í málinu og benti á að það yrði að vera verkefni dómstóla að fjalla um álitamál um hugsanlegan skaðabótarétt vegna málsmeðferðar og ákvarðana sveitarfélagsins, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Að lokum tók umboðsmaður fram að væri A að einhverju leyti ósáttur við nýja ákvörðun Félagsþjónustu Kópavogsbæjar í máli sínu gæti hann kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 5. gr. a í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, og að fenginni niðurstöðu nefndarinnar gæti hann leitað til sín á ný teldi hann enn hallað á rétt sinn.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu sína ákvað umboðsmaður að rita velferðarráðherra bréf og minna á þær almennu yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur með málaflokknum sem hvíla á ráðuneyti hans. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að þrátt fyrir að sá sem bæri fram ábendingu eða erindi á grundvelli hinna almennu yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldna ráðuneytis ætti ekki kröfu á að ráðuneytið fjalli um málið eða úrskurðaði í því væri það verkefni ráðuneytisins að taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig það teldi tilefni til að bregðast við. Það gæti síðan komið sjálfstæðrar athugunar, t.d. hjá umboðsmanni Alþingis, hvort ráðuneytið hefði að þessu leyti sinnt skyldum sínum.