Námslán og námsstyrkir. Úthlutunarreglur.

(Mál nr. 6859/2012)

A beindi erindi til umboðsmanns Alþingis vegna umræðu um hvort breyta ætti útlánareglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna þannig að réttur til námslána yrði takmarkaður eftir 50 ára aldur og taldi m.a. að þær breytingar gætu haft í för með sér mismunun.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 17. febrúar 2012.

Umboðsmaður tók fram að almennt væri það ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Af því taldi umboðsmaður enn fremur leiða að almennt væri ekki rétt að umboðsmaður hefði afskipti af lagasetningarferli, s.s. undirbúningi lagafrumvarpa í ráðuneytum, nema að því marki sem hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að meinbugir væru á gildandi löggjöf, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, enda væri ella hætta á að hann tæki með því óbeina afstöðu til starfa Alþingis. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna erindis A en benti honum á að hefði hann hug á að vekja athygli löggjafans á sjónarmiðum sínum gæti hann freistað þess að senda erindið þingmanni eða ráðherra.