Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 6741/2011)

A, sem hafði verið veitt lausn um stundarsakir frá embætti lögreglumanns, kvartaði yfir því að hafa ekki fengið að hefja störf á ný eftir að hafa verið sýknaður með dómi héraðsdóms vegna þess máls sem var tilefni ákvörðunar um að leysa hann frá störfum. Kvörtunin beindist að ríkislögreglustjóra, innanríkisráðuneytinu og nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi þess að ríkissaksóknari hafði áfrýjað dómi héraðsdóms í máli A fékk umboðsmaður ekki séð að þau atvik og þær forsendur sem lágu til grundvallar ákvörðun ríkislögreglustjóra um að veita honum lausn um stundarsakir hefðu breyst það verulega frá því að ákvörðunin var tekin. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa ástæðu til að gera athugasemdir við það mat ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneytisins að telja að forsendur sem A lagði fram til stuðnings kröfu sinni um að fá að hefja störf að nýju væru ekki lengur fyrir hendi. Í þessu sambandi taldi umboðsmaður að einnig yrði að horfa til þess að Hæstiréttur hefði nú ómerkt dóm héraðsdóms í máli A og vísað málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar þar sem réttinum þótti héraðsdómur ekki hafa fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna sem fyrir honum lágu. Þar sem umboðsmaður fékk ekki séð að fyrir hendi væri bein lagaheimild fyrir því að innanríkisráðuneytið tæki þátt í kostnaði vegna reksturs máls A fyrir nefnd samkvæmt 27. gr. laga nr. 70/1996 taldi hann enn fremur ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna þess atriðis. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til aðhafast vegna þess að nefndin hefði ekki gefið út álit í málinu fyrr en ákvörðun ríkissaksóknara um að áfrýja dómi héraðsdóms lá fyrir enda var álitið, í samræmi við starfsreglur nefndarinnar, gefið út innan mánaðar frá því málið var reifað munnlega af umboðsmönnum aðila fyrir nefndinni. Umboðsmaður tók jafnframt fram að ef A teldi sig hafa orðið fyrir tjóni í tilefni af rekstri málsins fyrir nefndinni væri það hlutverk dómstóla að fjalla um hugsanlega skaðabótaskyldu vegna þess, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að A gæti leitað til sín að nýju yrði hann ósáttur við endanlega ákvörðun í málinu. Umboðsmaður ákvað einnig að rita innanríkisráðherra bréf vegna málsins þar sem hann benti á að þrátt fyrir að ekki hefði verið skylt á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eins og atvikum var sérstaklega háttað, að veita A kost á að tjá sig um umsögn ríkislögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins í tilefni af stjórnsýslukæru A hefði slíkt verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.