Persónuréttindi. Lögræðissvipting.

(Mál nr. 6832/2012)

A, sem var sviptur lögræði, leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem virtist lúta að því að hann teldi skilyrði lögræðissviptingarinnar ekki vera lengur fyrir hendi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 6. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að starfssvið sitt tæki ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og því félli utan starfssviðs síns að fjalla um meðferð dómstóla á máli því er leiddi til uppkvaðningar úrskurðar um lögræðissviptingu A á sínum tíma. Hann benti A hins vegar á að samkvæmt 15. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 væri gert ráð fyrir því að lögræðissviptir einstaklingar ættu rétt á því að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að bera áframhaldandi lögræðissviptingu sína undir héraðsdómara og að úrskurðir þeirra sættu kæru til Hæstaréttar. Þar sem ákvarðanir um lögræðissviptingu og niðurfellingu slíkrar sviptingar eru í höndum dómstóla taldi umboðsmaður, í ljósi afmörkunar á starfssviði sínu, ekki skilyrði til þess að aðhafast frekar vegna erindis A en benti honum á að snúa sér til dómstóla.