Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

(Mál nr. 6788/2012)

A kvartaði yfir afgreiðslu lögreglustjóraembættis á beiðni hans um bann við notkun lögregluskýrslu um slys, s.s. með aðgangstakmörkunum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í tilefni af fyrirspurn til lögreglustjóra vegna málsins barst umboðsmanni bréf embættisins til A þar sem fram kom að misskilnings hefði gætt milli A og starfsmanns embættisins um beiðnina. Beiðni um bann við notkun þyrfti að beina til ríkislögreglustjóra og var boðist til að framsenda erindi A þangað. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina og lauk meðferð sinni á málinu.