Samgöngumál. Ökuréttindi.

(Mál nr. 6854/2012)

A kvartaði yfir tilhögun ökukennslu, nánar tiltekið því að þurfa að sækja ökuskóla til að öðlast réttindi til aksturs vélhjóls þrátt fyrir að hafa leyfi til aksturs létts bifhjóls, fólksbifreiðar, leigubifreiðar, vöruflutningabifreiðar, vöruflutningabifreiðar með tengivagni og fólksflutningabifreiðar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki séð að A hefði borið umkvörtunarefni sitt undir Umferðarstofu og síðan eftir atvikum undir innanríkisráðuneytið. Með vísan til hlutverks Umferðarstofu og ráðuneytisins, sbr. 111. og 112. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og K-lið 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, og einnig að gættum sjónarmiðum að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að beina erindi sínu til Umferðarstofu og síðan eftir atvikum til innanríkisráðuneytisins yrði hann ósáttur við niðurstöðu Umferðarstofu í málinu. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að yrði A ósáttur við niðurstöðu viðkomandi stjórnvalda í máli sínu gæti hann leitað til sín að nýju.