Sjávarútvegsmál.

(Mál nr. 6824/2012)

A kvartaði yfir gjaldtöku Fiskistofu fyrir veiðileyfi. Af kvörtuninni varð helst ráðið að hún beindist að 50.000 kr. strandveiðigjaldi. A benti m.a. á að bátar í öðrum kerfum greiddu ekki slíkt gjald og hann velti því fyrir sér hvort slík gjaldtaka stæðist.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti viðeigandi ákvæði laga nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, þar sem m.a. er fjallað strandveiðigjald. Hann tók fram að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið sitt ekki til starfa Alþingis og stofnana þess og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett. Ef kvörtun A lyti að efni laganna gæti hann því ekki fjallað um hana. Að öðru leyti og þar sem ekki lá fyrir hvort A hefði snúið sér til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins með erindi sitt benti umboðsmaður honum á, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að hann gæti leitað til ráðuneytisins en yrði hann ósáttur við úrlausn þess gæti hann leitað til sín á ný, þó með nefndar takmarkanir á starfssviði umboðsmanns í huga.