Skaðabætur.

(Mál nr. 6830/2012)

A kvartaði yfir því að bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, hefði hafnað beiðni hennar um að endurskoða ákvörðun sína frá árinu 2002 þar sem því var hafnað að greiða henni miskabætur að tiltekinni fjárhæð sem B var gert að greiða henni með dómi Hæstaréttar frá sama ári. Synjunin byggðist á því að bótakrafan væri byggð á dómi fyrir kynferðisbrot sem hefði verið framið á árinu 1990 en samkvæmt 20. gr. laga nr. 69/1995 gilda lögin um tjón sem leiðir af brotum sem framin eru eftir 1. janúar 1993.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að þar sem upphafleg ákvörðun bótanefndar um að synja umsókn A um greiðslu bóta hefði verið tekin utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 gæti hann ekki fjallað um hvort sú ákvörðun hefði verið í samræmi við lög. Umboðsmaður taldi jafnframt ljóst að að með setningu laga nr. 117/2011 hefði ætlun löggjafans ekki verið að gera breytingu á því að lög nr. 69/1995 tækju eingöngu til brota sem framin hefðu verið eftir 1. janúar 1993 heldur að heimila bótanefnd að víkja frá því skilyrði að þeir sem orðið hefðu fyrir broti á tímabilinu 1. janúar 1993 til 1. júlí 1996 þyrftu að leggja fram umsókn innan árs frá gildistöku laganna. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það að bótanefnd hefði hafnað beiðni A um endurupptöku málsins á þeim grundvelli að ekki fyrir fyrir hendi breyttar aðstæður eftir samþykkt laga nr. 117/2011. Í því sambandi tók A fram að máli vegna bótakröfu A hefði verið ráðið til lykta með dómi Hæstaréttar þar sem B var sýknaður af þeim ákæruliðum sem vörðuðu brot gegn A eftir gildistöku laga nr. 69/1995. Hæstiréttur hefði því tekið afstöðu til bótagrundvallarins og ekki lægi fyrir að dómstólar hefðu leyst úr einkaréttarlegri bótakröfu vegna brotanna, eftir atvikum á grundvelli vægari sönnunarkrafna en gerðar væru í refsimálum. Af 9. og 11. gr. laga nr. 69/1995 leiddi að þegar dómstóll hefði leyst úr bótakröfu á hendur þekktum og sakhæfum tjónvaldi væri sú úrlausn almennt bindandi fyrir bótanefnd, m.a. að því er varðaði það hvort skilyrði bótaskyldu væru fyrir hendi. Við þær aðstæður væri bótanefnd því ekki heimilt að meta sjálfstætt hvort fyrir hendi væri tjón sem væri afleiðing af broti á almennum hegningarlögum. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.