Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 6678/2011)

Umboðsmaður Alþingis ritaði ríkisskattstjóra bréf sem laut að því hvort upplýsingar um dagpeninga, sem komu fram í leiðbeiningum embættisins vegna skattframtala fyrir tiltekin ár, endurspegluðu með skýrum hætti þær kröfur sem gerðar væru til skattaðila um gögn til að sýna fram á útlagðan kostnað og leiddu af 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tilteknum dómum Hæstaréttar. Umboðsmaður taldi að af leiðbeiningum ríkisskattstjóra yrði ekki séð að gerð væri ótvíræð krafa um að viðtakendur dagpeninga sem óskuðu eftir að njóta frádráttar vegna dagpeninganna þyrftu að uppfylla önnur skilyrði en hafa tiltæk gögn um tilefni ferðar, fjölda dvalardaga og fjárhæð dagpeninga og að krafan um fjárhæð frádráttarins væri í samræmi við þær fjárhæðir sem fram kæmu í skattmati. Í framkvæmd skattyfirvalda væri hins vegar gerð krafa um framlagningu kostnaðargagna eða annarra viðhlítandi skýringa fyrir kostnaði. Bréf umboðsmanns var ritað með það í huga að taka ákvörðun um hvort tilefni væri til að hefja athugun á málinu að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á efni leiðbeininganna.

Umboðsmaður Alþingis lauk umfjöllun sinni um málið með bréfi, dags. 8. febrúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í svarbréfi ríkisskattstjóra til umboðsmanns vegna málsins kom fram að ríkisskattstjóri teldi leiðbeiningar sínar fullnægjandi en hygðist engu að síður gera tilteknar breytingar á þeim. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til þess að hefja frumkvæðisathugun. Hann ákvað þó að rita ritaði ríkisskattstjóra bréf þar sem hann kom þeirri ábendingu á framfæri, í ljósi þess að leiðbeiningarnar eru skrifaðar fyrir almenna framteljendur, að það væri í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ótvírætt kæmi fram að skilyrði þess að njóta frádráttar væri að launþegi gæti lagt fram reikninga og/eða önnur fylgiskjöl, svo sem kvittanir, fyrir þeim kostnaði sem hann hefði greitt vegna ferða á vegum launagreiðanda. Umboðsmaður tók fram að þar hefði hann einnig í huga að í lok leiðbeininganna væri sett fram skilyrði um að sérstök sjálfstæð gögn væru til í bókhaldi launagreiðanda og hjá launþega og því væri mikilvægt að launþegar gerðu sér grein fyrir því að þau gögn dygðu ekki til að sýna fram á að launþeginn hefði sannanlega greitt umræddan kostnað. Umboðsmaður óskaði þess jafnframt að ríkisskattstjóri gerði sér grein fyrir viðbrögðum embættis síns við ábendingunni.