Skattar og gjöld. Ýmis þjónustugjöld.

(Mál nr. 6792/2012)

Samtökin A kvörtuðu yfir gjaldtöku Þjóðskrár Íslands vegna aðgangs að upplýsingum úr þjóðskrá.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af gögnum málsins varð ekki séð að innanríkisráðuneytið hefði komið að ákvarðanatöku eða reglusetningu um umrædda gjaldtöku. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, laga nr. 77/2010, um sameiningu Þjóðskrár og fasteignaskrár ríkisins, og 19. og 20. gr. laga nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu, taldi umboðsmaður rétt að A freistuðu þess að bera athugasemdir samtakanna við afstöðu Þjóðskrár Íslands til gjaldtökunnar undir ráðuneytið. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að samtökin gætu leitað til sín að nýju yrðu þau ósátt við úrlausn innanríkisráðuneytisins. Þá tók umboðsmaður fram að hann hefði ákveðið að rita bréf til Þjóðskrár Íslands með það fyrir augum að taka ákvörðun um hvort ástæða væri til að hefja frumkvæðisathugun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, vegna gjaldtöku stofnunarinnar fyrir útgáfu vottorða, skilríkja, aðgang að þjóðskrá og afnot af upplýsingum hennar.