Svör við erindum. Efnisleg svör.

(Mál nr. 6666/2011)

A kvartaði yfir svörum embættis ríkisskattstjóra við fyrirspurn um skattalega meðferð leigutekna og áhrif skráðs lögheimilis á þá meðferð.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi að við mat á því hvort svar ríkisskattstjóra við fyrirspurn sem A lagði fram tilgreindan dag væri fullnægjandi yrði að horfa til fyrri samskipta hans við ríkisskattstjóra, en í skýringum ríkisskattstjóra kom fram að A hefði sent embættinu fjórar fyrirspurnir á stuttu tímabili og þeim hefði öllum verið svarað. Að virtu efni þessara samskipta taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við þá afstöðu ríkisskattstjóra að svör embættis hans við fyrirspurn A hefðu fullnægt kröfum sem leiða af leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Í þessu sambandi tók umboðsmaður fram að það leiddi ekki af leiðbeiningarskyldunni að stjórnvald, sem hefur það verkefni að hafa eftirlit með einstaklingum og lögaðilum á tilteknum afmörkuðum sviðum og bregðast við brotum á löggjöf, yrði að taka fyrir fram efnislega afstöðu á grundvelli fyrirspurnar til þess hvort tiltekin atvik samrýmdust gildandi lögum. Með vísan til a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, fjallaði umboðsmaður ekki um athugasemdir A þess efnis að óheppilegt væri að fela ríkisskattstjóra mat í þessum efnum, en mælt er fyrir um það í 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að það væri almennt ekki hlutverk umboðsmanns að fjalla um það hvernig til hefði tekist með löggjöf settri af Alþingi. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar A og lauk umfjöllun sinni um hana.