Svör við erindum. Rökstuðningur eða skýringar.

(Mál nr. 6763/2011)

Hinn 10. nóvember 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist svör frá innanríkisráðuneytinu við erindum sem hann sendi ráðuneytinu með bréfum, dags. 11. og 24. janúar 2011. Bréfin lutu annars vegar að því að erindi dóttur hans til ráðuneytisins hefði ekki verið svarað en úr því var síðar bætt. Hins vegar voru einnig í bréfunum fyrirspurnir til ráðuneytisins er vörðuðu helgarumgengni A við dóttur sína og afgreiðslu tiltekins máls sem ráðuneytið hafði til meðferðar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. febrúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindi A hefði nú verið svarað með bréfi, dags. 11. janúar 2012. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar og lauk umfjöllun sinni um málið.