Svör við erindum. Röskstuðningur og skýringar.

(Mál nr. 6835/2012)

Hinn 23. janúar 2012 kvartaði A yfir því að hafa ekki ekki borist svör frá sýslumanni við erindi sem hún sendi embættinu með bréfi, dags. 12. október 2011, í tilefni af umgengnismáli sem var til umfjöllunar hjá embættinu þar sem fjallað var um heimild föður hennar til að ferðast með hana til útlanda. Af erindinu varð einnig ráðið að A væri ósátt við að afstaða hennar til umgengni hennar við föður sinn væri ekki virt af stjórnvöldum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem faðir A hafði kært ákvörðun sýslumanns í málinu til innanríkisráðuneytisins og málið, m.a. að því leyti sem það varðaði afstöðu A til umgengninnar, var þar til meðferðar þar taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við gagnvart sýslumanni. Umboðsmaður benti A hins vegar á þann möguleika að upplýsa innanríkisráðuneytið um afstöðu sína til málsins líkt og hún gerði í bréfi til sýslumanns, sbr. 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 1. mgr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003.