Svör við erindum.

(Mál nr. 6833/2012)

Hinn 20. janúar 2012 barst umboðsmanni kvörtun frá A yfir því að sér hefðu ekki borist svör frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu við landamerkjakröfu vegna jarðarinnar X en íslenska ríkið væri eigandi aðliggjandi jarðar. Krafa um landamerki var upphaflega sett fram á árinu 2008. Í kjölfarið áttu sér stað nokkur samskipti milli A og ráðuneytisins og í september 2011 tjáði starfsmaður ráðuneytisins umboðsmanni A að beðið væri greinargerðar landfræðings.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis kom m.a. fram að málið hefði tafist vegna veikindaleyfis starfsmanns en gert væri ráð fyrir að ákvörðun gæti legið fyrir í mars 2012. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna máls A að sinni og lauk meðferð sinni á því. Hann tók þó fram að A gæti að sjálfsögðu leitað til sín á ný ef frekari óeðlilegar tafir yrðu á meðferð málsins.