Þinglýsingar.

(Mál nr. 6885/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með erindi sem beindist að sýslumannsembætti vegna þinglýsingar á lóðarleigusamningi sem hann taldi eiga að aflýsa.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af kvörtuninni varð ekki beinlínis ráðið hvort A hefði þegar leitað með beiðni um aflýsingu lóðarleigusamningsins til viðkomandi sýslumannsembættis. Umboðsmaður benti honum því á að beina erindi sínu þangað, sbr. 13. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Yrði hann ósáttur við niðurstöðu sýslumanns gæti hann borið úrlausn hans undir héraðsdóm, sbr. 3. gr. laganna. Þar sem af því lagaákvæði varð ekki annað ráðið en löggjafinn hefði ætlast til þess að leitað væri úrskurðar dómstóla þegar ágreiningur væri uppi um úrlausnir þinglýsingarstjóra taldi umboðsmaður ekki skilyrði að lögum til að fjalla frekar um kvörtunina, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 og lauk umfjöllun sinni um málið.