Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6753/2011)

A og B, sem bæði höfðu 75% örorku, kvörtuðu yfir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða B einungis örorkulífeyri í samræmi við búsetuhlutfall hennar eða 37,52%. Samkvæmt gögnum er fylgdu erindinu voru greiðslur tryggingastofnunar til B endurreiknaðar þar sem búsetuhlutfall hennar hafði verið rangt skráð. Var búsetuhlutfallinu í framhaldinu breytt úr 100% í 37,52% og greiðslur endurreiknaðar með hliðsjón af því.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 26. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og þess að ákvörðun tryggingastofnunar var ekki kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. 7. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, brustu lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti fjallað sérstaklega um ákvörðunina.

Þá tók umboðsmaður fram að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf settri af Alþingi. Að því leyti sem kvörtunin lyti að ákvæðum 17. og 18. gr. laga nr. 100/2007 væru því ekki skilyrði til að taka málið til efnislegrar athugunar. Umboðsmaður tók þó fram að í tilefni af boðaðri endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni hefði hann bent þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra á tiltekin álitaefni þessu tengd, sjá mál nr. 5919/2010.

Umboðsmaður lauk málinu en benti A og B hins vegar á að samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 væri heimilt að miða lífeyri beggja hjóna, „sem bæði fá lífeyri?, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma. A og B hefðu því möguleika til að leita til tryggingastofnunar með erindi þar að lútandi teldu þau að ákvæðið gæti átt við. Hann benti þeim einnig á að ef þau teldu útreikning búsetuhlutfallsins rangan gætu þau leitað til tryggingastofnunar vegna þess. Að lokum tók umboðsmaður fram að ef A og B leituðu til tryggingastofnunar og, eftir atvikum úrskurðarnefndar almannatrygginga, vegna þessara atriða og yrðu ósátt við svör sem þau fengju gætu þau leitað til sín á ný.