Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6907/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og fór þess á leit að kannað yrði hvort fyrirkomulag greiðslna örorkubóta og lífeyris skertu mannréttindi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að fyrirkomulag greiðslna örorkubóta og annarra lífeyristrygginga frá Tryggingastofnun ríkisins væri ákveðið með lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og þar væri einnig fjallað um hvernig aðrar tekjur og styrkir, s.s. greiðslur úr séreignalífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, hefðu áhrif á fjárhæðir lífeyristrygginga almannatrygginga. Starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett.

Þá fékk umboðsmaður ekki að fullu ráðið hvort A gerði athugasemdir við ákvarðanir stjórnvalda í máli sínu eða hvort þær beindust að starfsháttum lífeyrissjóðs, og þá hvaða lífeyrissjóðs. Þar sem engin gögn fylgdu kvörtuninni taldi umboðsmaður ekki að fullu ljóst hvort skilyrðum laga nr. 85/1997 væri fullnægt til meðferðar kvörtunarinnar. Hann lauk því málinu en benti A á að senda sér nýtt erindi með nauðsynlegum fylgigögnum ef hann teldi erindi sitt heyra undir starfssvið umboðsmanns.