Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6860/2011)

A kvartaði yfir mismunun á bótagreiðslum vegna læknisaðstoðar og veikinda ásamt mismunun á inneign uppsafnaðs persónufrádráttar. Í kvörtuninni kom fram að han teldi mismununina felast í að tekið væri mið af fastákveðinni dagsetningu í útreikningi á bótum eða inneign persónufrádráttar í stað þess að miða við ákveðna tímalengd, t.d. síðustu 12 mánuði.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður gerði grein fyrir því að lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, gerðu ráð fyrir því að persónuafsláttur miðaðist við almanaksár. Þá gerðu lög nr. 45/1987 ráð fyrir því að persónuafsláttur gæti eingöngu safnast upp frá ársbyrjun staðgreiðsluárs. Umboðsmaður benti á að samkvæmt þessu lyti kvörtun A að fyrirmælum laga en samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns Alþingis ekki til starfa Alþingis og þar með þess hver hefði orðið niðurstaða Alþingis um lagasetningu eða hvernig til hefði tekist í þeim efnum, þ.m.t. hvort lög væru í andstöðu við stjórnarskrá, en það væri almennt álitið vera hlutverk dómstóla. Umboðsmaður taldi því ekki vera fyrir hendi skilyrði til þess að fjalla nánar um þennan hluta kvörtunarinnar.

Hvað varðaði mismunun á bótagreiðslum, þá taldi umboðsmaður ekki verða skýrlega ráðið af erindi A hvers konar bótagreiðslur um væri að ræða, þ.e. vegna útgáfu afsláttarskírteina vegna notkunar heilbrigðisþjónustu eða vegna annarra endurgreiðslna vegna notkunar heilbrigðisþjónustu. Hann benti A hins vegar á að hann kynni að eiga möguleika á að bera kvörtunarefni sitt undir sjúkratryggingastofnunina og síðar eftir atvikum undir úrskurðarnefnd almannatrygginga, sbr. 34. gr. og 36. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 yrði afstaða þeirra stjórnvalda að liggja fyrir áður en umboðsmaður gæti fjallað um málið. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga ætti hann þann kost að leita til sín á ný.