Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Atvinnubílstjórar.

(Mál nr. 6941/2012)

A kvartaði yfir viðbrögðum innanríkisráðuneytisins við erindum hans varðandi stöðvaskyldu leigubifreiðastjóra, þ.e. að allar leigubifreiðar á takmörkunarsvæði samkvæmt 8. gr. laga nr. 134/2001, um leigubifreiðar, skyldu hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð sem fengið hefði starfsleyfi Vegagerðarinnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður vísaði til þess að hann hefði þegar, í tilefni af eldra máli A nr. 6656/2011 bent á að með setningu laga nr. 134/2001 hefði löggjafinn ákveðið að um stöðvaskyldu skyldi kveðið á í lögum og að hann gæti því ekki tekið málið til frekari athugunar að því leyti, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem ekki varð séð að erindi A til innanríkisráðuneytisins vörðuðu tiltekna og afmarkaða ákvörðun leigubifreiðastöðvar eða Vegagerðarinnar, sem væri kæranleg til innanríkisráðuneytisins á grundvelli 4. gr. laga nr. 134/2001, heldur almenna óánægju hans með gildandi fyrirkomulag og einnig í ljósi þess að A fékk skriflegt svar við erindum sínum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við viðbrögð ráðuneytisins við umleitunum hans. Í því sambandi benti umboðsmaður m.a. á að ekki væri gert ráð fyrir því í lögum að ábendingar eða athugasemdir almennings um lagabreytingar væru lagðar í sama farveg eða hlytu sömu meðferð í stjórnsýslunni og ef um væri að ræða töku stjórnvaldsákvarðana eða veitingu opinberrar þjónustu eða að borgararnir ættu rétt á því að ráðuneyti tæki efnislega afstöðu til sérhverra ábendinga þeirra eða tillagna um breytingar á löggjöf.

Að lokum taldi umboðsmaður ekki að í bréfi ráðuneytisins til A fælist hótun um nafngreiningu við aðila sem málið varðaði heldur fékk hann ekki betur séð en að ráðuneytið hefði, í samræmi við leiðbeiningarskyldu sína og í tilefni af ósk A um nafnleynd, talið rétt að upplýsa hann um ekki væri heimilt lögum samkvæmt að heita honum fyrirfram nafnleynd. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til nánari athugunar á kvörtuninni og lauk málinu.